Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 81/2013

Miðvikudaginn 22. maí 2013

81/2013

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú r s k u r ð u r

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson hrl., Guðmundur Sigurðsson læknir og Þuríður Árnadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 28. febrúar 2013, kærir A, til úrskurðarnefndar almannatrygginga ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur til barnsmóður kæranda frá 1. janúar 2013.

Óskað er endurskoðunar.

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að með umsókn til Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 9. janúar 2013, fór barnsmóðir kæranda fram á milligöngu um meðlagsgreiðslur frá 1. janúar. Með bréfi, dags. 18. febrúar 2013, féllst stofnunin á milligöngu um meðlagsgreiðslur frá 1. janúar 2013 og var kæranda tilkynnt um þá ákvörðun með bréfi dagsettu sama dag. Í máli þessu fer kærandi fram á að framangreind ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins verði felld úr gildi eða að stofnunin miði upphaf milligöngunnar við 1. mars 2013.

Í kæru til úrskurðarnefndar almannatrygginga segir svo:

„Með vísan til bréfs Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 18. febrúar sl., er ákvörðun um meðlagsgreiðslur þar að lútandi kærð. Samkvæmt tilvísuðu bréfi var umsókn B, um meðlagsgreiðslur samþykkt frá og með 1. janúar 2013 að telja.

Hið rétta er að B hefur þegið meðlagsgreiðslur vegna janúar og febrúar 2013, en undirritaður hefur greitt meðlag með millifærslum beint á móður, án milligöngu Tryggingastofnunar ríkisins og Innheimtustofnunar sveitafélaga. Hjálagðar eru greiðslukvittanir því til staðfestingar.

Krafa

Eru gerðar þær kröfur fyrir úrskurðarnefnd almannatrygginga að hin kærða ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins verði felld úr gildi, eða henni henni breytt á þann veg að umsókn um meðlag verði samþykkt frá og með 1. mars 2013 að telja.“

Úrskurðarnefnd almannatrygginga óskaði eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins með bréfi, dags. 28. febrúar 2013. Í greinargerð stofnunarinnar, dags. 20. mars 2013, segir svo:

1. Kæruefni

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar um milligöngu um meðlag til barnsmóður kæranda frá 1. janúar 2013.

Meðfylgjandi kæru eru tvær kvittanir frá kæranda sem sýna að hann hafi lagt inn á barnsmóður sína meðlag þann 03.01.2013 og 04.02.2013 að fjárhæð 23.411 kr. í hvort skipti. Fer kærandi fram á að ákvörðun Tryggingastofnunar um milligöngu á meðlagi frá 1. janúar 2013 verði felld úr gildi eða henni breytt á þann veg að umsókn um meðlag verði samþykkt frá og með 1. mars 2013.

2. Málavextir

Málavextir eru þeir að Tryggingastofnun samþykkti með bréfi dags. 18. febrúar 2013 að hafa milligöngu um greiðslu meðlags til barnsmóður kæranda, B frá 1. janúar 2013, samkvæmt innsendri umsókn dags. 9. janúar 2013 og staðfestum samningi um meðlag dags. 8. nóvember 2011, en þar kemur fram að kærandi samþykki að greiða barnsmóður sinni tvöfalt meðlag með dóttur þeirra C frá 1. desember 2011. Tryggingastofnun sendi kæranda tilkynningu þann 18. febrúar 2013 um þessa afgreiðslu.

Í umsókn óskaði barnsmóðir kæranda um afturvirkar greiðslur meðlags þar sem kærandi hefði ekki staðið við samning um tvöfalt meðlag en þar sem meðlagsákvörðun var eldri en tveggja mánaða samþykkti Tryggingastofnun eingöngu milligöngu meðlagsins frá umsóknarmánuði, eða 1. janúar 2013.

3. Lög og reglugerðir sem málið snerta

Í 1. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007, með síðari breytingum, segir að hver sá sem fái úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hefur á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga nr. 76/2003, geti snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama skal gilda þegar lagt er fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga.

Í 4. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar kemur fram að Tryggingastofnun sé heimilt að greiða meðlag aftur í tímann allt að 12 mánuði, talið frá byrjun þess mánaðar sem stjórnvaldsúrskurður, staðfestur samningur eða vottorð sýslumanns um að hann hafi veitt viðtöku ósk móður um öflun faðernisviðurkenningar berst stofnuninni, enda eigi þá 4. mgr. 20. gr. ekki við.

Um heimildarákvæði er að ræða í 4. mgr. 63. gr. almannatryggingalaga og er því ekki um að ræða rétt umsækjanda um meðlagsgreiðslur frá Tryggingastofnun aftur í tímann, heldur heimild stofnunarinnar til að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur aftur í tímann, þó aldrei lengur en eitt ár.

Í 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 945/2009 segir að þegar meðlagsákvörðun er eldri en tveggja mánaða skuli einungis greiða frá byrjun þess mánaðar sem umsókn og fylgigögn berast, nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi sem geta réttlætt greiðslur lengra aftur í tímann, allt að 12 mánuði. Þá segir að með sérstökum ástæðum er m.a. átt við ef meðlagsmóttakanda hefur af einhverjum ástæðum verið ómögulegt að setja fram kröfu um milligöngu meðlagsgreiðslna án tafar.

Samkvæmt 67. gr. barnalaga nr. 76/2003 er Tryggingastofnun skylt að greiða rétthafa greiðslna skv. IV. og IX. kafla, sem búsettur er hér á landi, samkvæmt dómi, dómsátt, úrskurði sýslumanns eða samningi staðfestum af honum, þó innan þeirra marka sem lög um almannatryggingar setja.

4. Niðurstaða

Í úrskurði Félags- og tryggingamálaráðuneytisins dags. 3. febrúar 2009 segir að hlutverk Tryggingastofnunar sé eingöngu að hafa milligöngu um greiðslu meðlags þegar ákvörðun hefur verið tekin með lögmætum hætti. Ef foreldri leggur fram samkomulag um greiðslu meðlags sem staðfest er af sýslumanni beri Tryggingastofnun skv. 1. mgr. 63. gr. almannatryggingalaga og 67. gr. barnalaga að hafa milligöngu um greiðslu meðlags. Lög veiti Tryggingastofnun ekki heimild til að taka önnur gögn en talin eru upp í framangreindum ákvæðum til greina við milligöngu um greiðslu meðlags.

Þá segir í úrskurði Úrskurðarnefndar almannatrygginga nr. 466/2010 að þrátt fyrir að kærandi geti sýnt fram á að hann hafi lagt inn tiltekna fjárhæð á reikning barnsmóður sinnar breyti það engu um þá staðreynd að Tryggingastofnun ber skylda til að hafa milligöngu um meðlag samkvæmt lögformlegri meðlagsákvörðun sé þess farið á leit við stofnunina. Tryggingastofnun hefur engar heimildir til að virða að vettugi lögbundna skyldu sína til að greiða meðlag samkvæmt hinni lögformlegu meðlagsákvörðun.

Hjá Tryggingastofnun liggur fyrir umsókn barnsmóður kæranda dags. 9. janúar 2013 um milligöngu Tryggingastofnunar um greiðslu meðlags með dóttur sinni ásamt löggildum meðlagssamningi. Með vísan til framanritaðs bar Tryggingastofnun að hafa milligöngu um greiðslu meðlagsins til barnsmóður kæranda og er ekki heimilt að verða við beiðni kæranda um að taka til greina að hann hafi greitt barnsmóður sinni beint meðlag.

Þá kveður meðlagssamningur kæranda og barnsmóður hans á um greiðslu tvöfalds meðlags með dóttur kæranda en kvittanir kæranda sýna eingöngu innborgun á greiðslu einfalds meðlags.

Með vísan til alls framangreinds telur Tryggingastofnun ekki ástæðu til þess að breyta ákvörðun sinni um milligöngu meðlags til barnsmóður kæranda frá 1. janúar 2013.“

Greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 20. mars 2013, og honum gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Með bréfi, dags. 27. mars 2013, bárust svofelldar athugasemdir frá kæranda:

„Í umræddri greinargerð kemur fram að móðir C hafi farið fram á afturvirkar greiðslur þar sem undirritaður hefði ekki staðið við samning um tvöfalt meðlag, og var um það vísað til meðlagssamning milli foreldra. Tryggingastofnun byggir í niðurstöðu sinni að hluta til á þeirri málsástæðu að undirritaður hafi ekki staðið við greiðslu tvöfalds meðlags, s.s. samningurinn kveður á um, sbr. áður hjálagðar kvittanir sem undirritaður hefur lagt fram.

Þessu er til að svara að Tryggingastofnun ríkisins hefur ekki heimild til þess að byggja á því í málinu að fyrir liggi samningur um tvöfalt meðlag, þar eð stofnunin getur einungis haft milligöngu um greiðslu einfalds meðlags, sbr. 1. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, i.f., og 67. gr. barnalaga nr. 76/2003. Þau rök Tryggingastofnunar fyrir niðurstöðu sinni, um að ekki hafi verið staðið við greiðslu tvöfalds meðlags, koma máli þessu því á engan hátt við og mega ekki liggja til grundvallar ákvörðun hennar.

Þá kemur fram í greinargerð Tryggingastofnunar að stofnunin hafi ekki heimild að lögum til að taka önnur gögn en talin eru upp í framangreindum ákvæðum til greina við milligöngu um greiðslu meðlags. Fullyrðing þessi er einfaldlega röng. Við töku stjórnvaldsákvörðunar ber stjórnvöldum að rannsaka mál áður en ákvörðun er tekin og leitast við að taka rétta, lögmæta og rökstudda ákvörðun, sbr. 10. gr. og V. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá skal og gæta þess að fara ekki strangar í sakirnar en nauðsyn ber til svo ná megi því lögmæta markmiði sem að er stefnt, sbr. 12. gr. sömu laga.

Samkvæmt ofangreindu verður ekki á það fallist að Tryggingastofnun ríkisins geti tekið vísvitandi ranga og íþyngjandi ákvörðun, og ákveðið að hundsa fyrirliggjandi gögn sem leiða hið rétta í ljós. Því síður er á það fallist að lög standi í vegi fyrir að Tryggingastofnun geti tekið rétta ákvörðun í málinu, svo sem stofnunin reynir að halda fram í greinargerð sinni. Hvergi er þess getið í lögum að stofnunin megi ekki upplýsa mál og líta til fyrirliggjandi gagna við ákvarðanatöku.

Tryggingastofnun ríkisins ber að upplýsa og rannsaka mál áður en ákvörðun er tekin, og getur ekki ákveðið einhliða til hvaða gagna hún kýs að líta við töku stjórnvaldsákvörðunar. Ákvarðanir stjórnvalda sem teknar eru vitandi vits um rangindi þeirra ber að ógilda. Fyrir liggur í málinu að meðlag hefur verið greitt til móður fyrir janúar og febrúar 2013, og á Tryggingastofnun ber hrein lagaskylda að leggja það til grundvallar ákvörðun sinni.

Í málinu liggja millifærslukvittanir fyrir meðlagsgreiðslum fyrir janúar og febrúar 2013, sem taka af allan vafa um að meðlag hefur verið greitt fyrir umrætt tímabil. Kvittanirnar bera með sér textalykilinn Meðlag, svo enginn velkist í vafa um það hvers konar greiðslur um er að ræða.

Að öðru leyti vísast til þess sem þegar hefur komið fram og liggur fyrir í málinu.“

Athugasemdir kæranda voru kynntar Tryggingastofnun ríkisins með bréfi, dags. 2. apríl 2013. Viðbótargreinargerð, dags. 16. apríl 2013, barst frá stofnuninni þar sem fyrri greinargerð var ítrekuð. Frekari athugasemdir bárust ekki.

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur til barnsmóður kæranda frá 1. janúar 2013. Kærandi fer fram á að sú ákvörðun verði felld úr gildi eða að upphafstími milligöngu meðlagsgreiðslnanna verði frá 1. mars 2013.

Í kæru til úrskurðarnefndar greinir kærandi frá því að barnsmóðir hans hafi þegið meðlagsgreiðslur vegna janúar og febrúar þar sem hann hafi greitt meðlag með millifærslum beint til hennar án milligöngu Tryggingastofnunar ríkisins og Innheimtustofnunar sveitarfélaga. Í athugasemdum við greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins vísar kærandi til þess að stjórnvöldum beri að rannsaka mál áður en ákvörðun sé tekin og leitast við að taka rétta, lögmæta og rökstudda ákvörðun, sbr. 10. gr. og V. kafli stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá skuli gæta þess að fara ekki strangar í sakir en nauðsyn beri til svo ná megi því lögmæta markmiði sem að sé stefnt, sbr. 12. gr. sömu laga. Þá telur kærandi að stofnunin geti ekki vísvitandi tekið ranga og íþyngjandi ákvörðun, og ákveðið að hundsa fyrirliggjandi gögn sem leiði hið rétta í ljós. Þá fallist hann ekki á að lög standi í vegi fyrir að stofnunin geti tekið rétta ákvörðun í málinu. Þess sé hvergi getið í lögum að stofnunin megi ekki upplýsa mál og líta til fyrirliggjandi gagna við ákvarðanatöku.

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins er vísað til þess að í tilvikum þar sem foreldri leggi fram samkomulag um greiðslu meðlags sem staðfest hafi verið af sýslumanni beri stofnuninni að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur, sbr. 1. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar og 67. gr. barnalaga. Lögum samkvæmt hafi stofnunin ekki heimild til að taka önnur gögn en þau sem talin séu upp í nefndum ákvæðum til greina við ákvörðun um milligöngu meðlagsgreiðslna. Hjá stofnuninni hafi legið fyrir umsókn barnsmóður kæranda ásamt löggildum meðlagssamningi og hafi stofnuninni því borið að fallast á milligöngu um meðlagsgreiðslurnar.

Mál þetta lýtur að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að samþykkja umsókn barnsmóður kæranda um milligöngu um meðlagsgreiðslur frá 1. janúar 2013. Kærandi hefur lagt fram tvær útprentanir úr heimabanka þar sem fram kemur að hann hafi millifært á barnsmóður sína 23.411 kr. annars vegar þann 3. janúar 2013 og hins vegar þann 4. febrúar 2013. Í skýringum á greiðslunum kemur fram að þær séu meðlag.

Í 1. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er kveðið á um milligöngu Tryggingastofnunar ríkisins um meðlagsgreiðslur þar sem segir:

,,Hver sá sem fær úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hefur á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga nr. 76/2003, getur snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama skal gilda þegar lagt er fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga. […] Fyrirframgreiðsla meðlags frá Tryggingastofnun skal ávallt vera innan þeirra marka sem 20.gr. laga þessara setur um fjárhæð greiðslna og aldur barna.“

Samkvæmt tilvitnuðu lagaákvæði getur einstaklingur sem hefur barn á framfæri átt rétt á fyrirframgreiðslu meðlags liggi fyrir lögformleg meðlagsákvörðun. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins sótti barnsmóðir kæranda um meðlag til Tryggingastofnunar ríkisins með umsókn, dags. 9. janúar 2013. Meðfylgjandi umsókninni var samningur um meðlag, dags. 8. nóvember 2011, staðfestur af sýslumanninum í Reykjavík. Samkvæmt samningnum ber kæranda að greiða barnsmóður sinni tvöfalt meðlag frá 1. desember 2011. Tryggingastofnun ríkisins samþykkti milligöngu um einfaldar meðlagsgreiðslur frá 1. janúar 2013 með hliðsjón af greiðsluþátttöku samkvæmt 1. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007, sbr. 20. gr. sömu laga, á grundvelli umsóknarinnar og meðlagsákvörðunarinnar. Fyrirliggjandi gögn, þ. á m. staðfestingar kæranda á greiðslum til barnsmóður hans, eru ekki í andstöðu við samningabundna skyldu kæranda á greiðslu meðlags. Að mati úrskurðarnefndar almannatrygginga er ekki tilefni til að rannsaka málið frekar.

Hlutverk Tryggingastofnunar ríkisins í tengslum við meðlagsgreiðslur markast af ákvæðum viðeigandi laga og reglugerða. Samkvæmt fyrrnefndri 1. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar ber stofnunin lögbundna skyldu til að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur sé þess farið á leit við stofnunina í þeim tilvikum þar sem lögformleg meðlagsákvörðun liggur fyrir. Í ákvæðinu, sem er grundvöllur ákvörðunar Tryggingastofnunar, segir nánar tiltekið að hver sá sem fær úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni geti snúið sér til stofnunarinnar og fengið fyrirframgreiðslu meðlags samkvæmt úrskurðinum. Að mati úrskurðarnefndar hefur Tryggingastofnun ríkisins uppfyllt rannsóknarskyldu sína með því að leggja meðlagsákvörðunina til grundvallar eins og 1. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007 kveður á um.

Í reglugerð nr. 945/2009, um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærsluframlaga, sem sett hefur verið með stoð í 6. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007, er að finna nánari reglur er lúta að upphafstíma meðlagsgreiðslna. Þar segir í 2. mgr. 7. gr. að í tilvikum þar sem meðlagsákvörðun sé eldri en tveggja mánaða skuli einungis greiða frá byrjun þess mánaðar sem umsókn og fylgigögn berist Tryggingastofnun ríkisins. Í umsókn barnsmóður kæranda frá 9. janúar 2013 er sótt um milligöngu stofnunarinnar frá 1. janúar 2013 á grundvelli meðlagsákvörðunar dags. 8. nóvember 2011.

Með hliðsjón af framangreindu verður að mati úrskurðarnefndar almannatrygginga ekki annað ráðið en að Tryggingastofnun ríkisins hafi farið að ákvæðum viðeigandi laga og reglugerðar við afgreiðslu á umsókn barnsmóður kæranda. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að greiða barnsmóður kæranda meðlag frá 1. janúar 2013 er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur til barnsmóður A, frá 1. janúar 2013 er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

Friðjón Örn Friðjónsson formaður


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum